
STEFNUMÁL


Fjárhagsstaða Kópavogs er sterk og skuldir bæjarins hóflegar. Þannig skal það áfram vera. Skilvirkur og ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Stilla þarf álögum á heimili og fyrirtæki í hóf og leita leiða til að lækka þær. Kópavogur á að vera leiðandi í stafrænni þróun á sveitarstjórnarstigi enda felur það í sér fjárhagslegan og samfélagslegan ávinning. Mikilvægt er að standa vörð um traustan rekstur til að mæta áskorunum framtíðarinnar og lækka skuldir.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Skilvirkur rekstur.
Tryggja þarf gagnsæi í rekstri og endurmeta markvisst fjárveitingar Kópavogs til ólíkra málaflokka. Forgangsröðun er nauðsynleg þegar takmörkuðum fjármunum íbúa er úthlutað til verkefna. Ég vil halda áfram að opna bókhald Kópavogsbæjar fyrir bæjarbúum.
● Gjöldum og álögum stillt í hóf.
Mikilvægt er að skapa rými til að lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Ábyrgur rekstur bætir þjónustu við íbúa. Ég vil stefna að lækkun fasteignaskatta og útsvars á kjörtímabilinu.
● Snjall Kópavogur.
Stafrænar lausnir tryggja betri yfirsýn yfir reksturinn og auðvelda að hægt sé að bæta nýtingu fjármuna. Ég vil auk þess spara Kópavogsbúum tíma og peninga.

Kópavogur er sveitarfélag í fremstu röð og þarf því að vera leiðandi í skólamálum. Mikilvægt er að auka sjálfstæði skóla enda sýna rannsóknir að aukið sjálfstæði helst í hendur við betra nám fyrir nemendur og vaxandi ánægju starfsfólks. Tryggja þarf snjallar lausnir í kennslu sem bæta gæði náms og starfsumhverfi kennara. Samhliða þarf að huga að auknum sveigjanleika sem nýtist bæði kennurum og vinnustaðnum án þess að slíkt komi niður á menntun nemenda. Leikskólar bæjarins eru kjarninn í samfélaginu, ekki aðeins sem
fyrsta skólastigið heldur einnig sem þjónusta við börn og foreldra þegar fæðingarorlofi lýkur. Uppbygging leikskóla þarf að vera í samræmi við fjölgun íbúa en um leið þarf að finna leiðir til að leysa mönnunarvanda þeirra, bæði er varðar faglærða og ófaglærða starfsmenn. Stuðla þarf að fjölbreyttari valkostum í grunn- og leikskólum.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Aukinn sveigjanleiki.
Ég vil auka enn frekar sjálfstæði skóla og leyfa skólum að skipuleggja starf sitt í samræmi við skýran ramma frá Kópavogi og í takt við aðalnámskrá.
● Engin stimpilklukka.
Ég vil stuðla að sveigjanleika í grunnskólum Kópavogs sem nýtist bæði kennurum og skólum án þess að það komi niður á menntun barna okkar. Kennarar, í samráði við
stjórnendur skóla, vita best hvernig hentugast er að haga deginum eftir að kennsluskyldu lýkur og við eigum að treysta starfsmönnum skólanna til að finna lausnir á því.
● Fleiri snjallar lausnir í kennslu.
Skólar Kópavogs eiga áfram að vera leiðandi í stafrænni þróun og hagnýtingu tækninnar. Hægt er að nýta betur tæknina á skapandi hátt sem bætir gæði náms og stuðlar að bættum vinnuvef fyrir kennara.
● Leikskólabrú fyrir alla.
Ég vil efla og útvíkka stuðning bæjarins til að sinna námi í leikskólafræðum. Styrkja þarf ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið sem auka hæfni þeirra þannig að meiri hvati sé til að vinna áfram á leikskólum Kópavogs.



Samgöngur skipta okkur öll máli, hvort sem við erum gangandi, á hjóli, í bíl eða notum almenningssamgöngur. Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í takt við vaxandi bæ er
lífskjaramál. Mikilvægt er að standa vörð um hagsmuni bæjarbúa í þessum efnum og ég mun leiða hagsmunagæslu fyrir Kópavogsbúa í samningum við ríkið og önnur sveitarfélög. Fram undan er mikil uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu og þá er mikilvægt að standa vörð um ábyrgan rekstur og raunhæfar áætlanir.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Valfrelsi.
Ég vil tryggja valfrelsi í samgöngum og að fjárfest verði í innviðum fyrir mismunandi ferðamáta þannig að fólk geti valið að nota bíl, hjól, vera gangandi eða nota almenningssamgöngur.
● Hagkvæmar lausnir.
Á öllum stigum og í öllum verkefnum þarf að leita hagkvæmustu
leiða til að ná þeim árangri sem að er stefnt og ákvarðanataka
byggð á arðsemismati framkvæmda.
● Hagsmunir Kópavogs í fyrirrúmi.
Mikilvægt er að standa vörð um hagsmuni Kópavogsbúa.

Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum. Mikilvægt er að vanda vel til
verka með það að markmiði að húsnæði fyrir fólk á öllum aldursskeiðum verði í boði. Jafnframt þarf að tryggja samstöðu og sátt meðal bæjarbúa. Fjárfesta þarf í innviðum til að fylgja eftir fjölgun íbúa - það er fjárfesting til framtíðar.
Hverfi Kópavogs eiga að vera eftirsóknarverð. Þar sem unnt er að koma því við á skipulag hverfanna að miða að því að íbúar þeirra geti sótt sem mest af daglegri þjónustu í göngufjarlægð frá heimili sínu. Áfram þarf að viðhalda götum og stígum. Ég vil gera hverfin okkar enn betri og vistvænni.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Uppbygging fyrir alla.
Áformað er að byggja 4.000 íbúðir á næstu átta árum. Ég mun leggja mitt af mörkum til að tryggja húsnæði fyrir fólk á öllum aldursskeiðum. Fjárfesting í innviðum verður að haldast í hendur við fjölgun hvort sem er í skólum, samgöngum eða öðrum innviðum.
● Framíðarsýn.
Hverfi og þarfir íbúa breytast með lýðfræðilegri þróun. Mikilvægt er að hafa sýn á mögulega
þróun hverfa þannig að uppbygging haldist í hendur við þarfir íbúa á hverjum tíma. Hverfi breytast og stjórnendur bæjarins þurfa að vera reiðubúnir að bregðast við slíkri þróun með afgerandi hætti.
● Sjálfbær hverfi.
Ég vil stuðla að því að hverfi Kópavogs geti mætt sem mest af daglegum þörfum íbúa sinna í göngufjarlægð frá heimili hvort sem horft er til skóla, íþrótta- og tómstundaiðkunar, leiksvæða, útivistarsvæða eða verslunar og þjónustu.
● Grænn Kópavogur.



Lýðheilsa er mikilvæg fyrir unga sem aldna Kópavogsbúa. Bærinn okkar á að vera framúrskarandi samfélag sem stuðlar að vellíðan á öllum aldursskeiðum. Hvort sem horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi eða mataræðis barna, eldri borgara eða starfsmanna bæjarins.
Íþrótta- og æskulýðsfélög bæjarins gegna mikilvægu forvarnarhlutverki fyrir
unga sem aldna. Við eigum að efla það starf enn frekar. Eldri bæjarbúar eiga að
fá tækifæri til að búa á heimilum sínum eins lengi og þeir kjósa með
nauðsynlegum stuðningi. Tækifæri eru til að samþætta betur heimaþjónustu og
heimahjúkrun eldri borgara. Slíkt skilar sér í skilvirkari og betri þjónustu
til notenda. Mikil þróun er nú í fjarþjónustu í lýðheilsumálum. Kópavogur á að
vera leiðandi á þessu sviði.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Eflum íþróttafélög.
Íþróttafélög bæjarins gegna mikilvægu forvarnarhlutverki og ég vil standa vörð um allt það góða starf sem þar fer fram. Ég vil efla samstarf bæjarins við íþróttafélögin og hugsa til langs tíma þegar kemur að forgangsröðun viðhalds og fjárfestinga.
● Hollt mataræði stuðlar að betri líðan.
Ég sé tækifæri til að samþætta innkaup á öllum skólastigum en leggja ríka áherslu á hollan og næringarríkan mat.
● Snjallar lýðheilsuupplýsingar beint í símann.
Íbúar vilja vita hvar græn svæði, hjóla-, hlaupa- og göngustígar, leiksvæði og svæði til útivistar er að finna. Lýðheilsuapp í símanum myndi veita íbúum Kópavogs slíkar upplýsingar án fyrirhafnar.
● Virkjum og eflum eldri Kópavogsbúa.
Samstarf Kópavogs við íþróttafélög í verkefninu Virkni og vellíðan hefur reynst vel.
Mikilvægt er að verkefnið nái til allra hverfa þannig að allir íbúar 60 ára og eldri fái tækifæri til heilsueflingar allt árið.
● Eflum heimaþjónustu fyrir eldri Kópavogsbúa.
Ég tel mikilvægt að íbúar Kópavogs hafi valkosti um búsetu. Eldri íbúar sem vilja og geta búið heima hjá sér með réttum stuðningi eiga að hafa val um slíkt frekar en að fara á hjúkrunarheimili. Bæjarfélagið er nær fólkinu og heimilum þess en ríkið og er því mikilvægt að stuðla að samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Slíkt skref er mikið hagsmunamál fyrir fólk og mun skila sér í betri þjónustu og bættri líðan hjá eldri borgurum.
● Fjarþjónusta í lýðheilsumálum.
Hröð þróun er nú á þessu sviði en með því að nýta þessa tækni á ná miklum árangri í að bæta líðan bæjarbúa með minni kostnaði.

Kópavogsbær á að vera leiðandi í stafrænni þróun enda til hagsbóta fyrir bæði íbúa og fyrirtæki bæjarins. Þjónustan verður þannig sveigjanlegri og fljótvirkari. Stafrænar lausnir eru í örri þróun og því mikilvægt að vera leiðandi bæjarfélag í þeirri vegferð.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Snjallar lausnir.
Ég vil bæta þjónustu við íbúa og fyrirtæki Kópavogs með netlausnum, eins og t.d. bjóða rafrænar tímabókanir hjá sérfræðingum bæjarins, notkun á rafrænum eyðublöðum, netspjall fyrir einfalda aðstoð. Fjárfesting í stafrænum lausnum er tækifæri til að fara
betur með fjármagn íbúa, draga úr sóun og spara tíma.
● Snjallar upplýsingar.
Kópavogsbúar vilja vita hvenær ruslið verður tekið, hvenær göturnar verða mokaðar eða hvenær grasið á opnum svæðum verður slegið. Ég vil gera slíkar upplýsingar og fleiri aðgengilegar fyrir íbúa með því að nýta stafrænar lausnir.
● Snjallar kosningar.
Ég vil útvíkka verkefnið Okkar Kópavogur. Hér býr snjallt fólk og ég vil hlusta á hugmyndir þeirra hvort sem um er að ræða barnafjölskyldur, eldri bæjarbúa eða starfsfólk bæjarins. Gerum Kópavog enn betri, saman.



Kópavogur er í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi. Við verðum að tryggja að svo verði áfram, með því að leggja áherslu á skilvirkan rekstur, lágar álögur, framúrskarandi þjónustu, greiðar samgöngur og skýra framtíðarsýn fyrir alla bæjarbúa. Við getum styrkt tekjustofna bæjarins og fjölgað atvinnutækifærum með því að laða enn frekar til okkar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja. Til þess þurfum við að tryggja að
stjórnsýsla sé skilvirk, að erindi séu afgreidd hratt og örugglega og leggja
áherslu á að spara fólki sporin með stafrænum lausnum.
ÁHERSLUR MÍNAR:
● Forgangsröðun og lækkun á álögum.
Ég vil fylgja fjármagni betur eftir þannig að markmið náist og árangur skili sér til þeirra sem njóta þjónustu bæjarins. Ég mun leggja áherslu á skilvirkan rekstur en jafnframt leita leiða til að lækka álögur á kjörtímabilinu á íbúa og fyrirtæki Kópavogs.
● Í Kópavogi er eftirsóknarvert að búa og starfa.
Ég vil sjá Kópavog sækja fram á öllum sviðum. Kópavogur hefur forskot á höfuðborgina þegar litið er til samgöngumála, almennrar þjónustu og leik- og grunnskóla. Hér liggja tækifæri sem við eigum að nýta.
● Gróska Kópavogs.
Af hverju ekki að byggja upp eins konar Grósku Kópavogs í efri og neðri byggðum? Hátækniklasi gæti myndast í efri byggðum og klasi nýsköpunar í neðri byggðum. Ég mun beita mér fyrir samstarfi við Háskólann í Reykjavík sem mun tengjast Kópavogi á
kjörtímabilinu með nýrri Fossvogsbrú. Snjöll fyrirtæki sem skapa verðmæt störf eiga heima í Kópavogi. Starfsfólk þeirra líka. Verum snjöll og sækjum fram!